Ég skil ekki íbúalýðræði

Ég skil ekki tilgang með þessu íbúalýðræði, nema  þá að það sé leið stjórnmálamanna til að fría sig ábyrgð.

Til hvers erum við að kjósa stjórnmálamenn í bæjar/borgarstjórnir og inn á þing ef þeir þora ekki að taka ákvarðanir?

Við búum við það form á okkar lýðræði að við kjósum á fjögurra ára fresti, jafnvel skemur ef illa hefur til tekist.

Við kjósum fólk sem við treystum til góðra verka, ogviljum að þau taki ákvarðanir í okkar nafni á meðan þau hafa umboð til þess.  Nú vilja sumir stjórnmálamenn allt í einu hafa atkvæðagreiðslur um hin og þessi mál, hvort sem um eitt sveitarfélag er að ræða eða jafnvel þjóðina alla.En sumir segja að þetta eigi að bæta lýðræðið í þjóðfélaginu og þeir sem hæst hafa og mest ber á í þessari umræðu eru menn sem eru kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum eða á Alþingi.  Þetta er að sjálfsögðu hrein fyrra og nær ekki nokkru tali.

Þeir sem gefa kost á sér til setu í sveitar, bæjarstjórnum og eða á Alþingi geta ekki hlaupið frá ábyrgð sinni með því einu að senda málið í atkvæðagreiðslu hjá íbúum sveitarfélagins í hvert sinn sem þeim er vandi á höndum.

Til hvers voru þeir kosnir ef ekki til að klára málið og taka svo afleiðingunum við næstu kosningar.

Kosningar sem þessar skapa ekki aukið lýðræði. Þær ala á sundrungu eðli sínu samkvæmt. Ef augljóst væri hvernig vilji fólksins lægi þá væri kjörnum fulltrúum ekkert að vanbúnaði að taka ákvörðun og málið væri afgreitt. Það er því ávallt þegar tvísýnt er um hvernig fer sem að brugðið verður á það óheillaráð að senda málið til fólksins í atkvæðagreiðslu því stjórnmálamaðurinn gæti misst fylgi með því að veðja á rangan hest.

Nei, kjörnir fulltrúar verðið að axla þá ábyrgð sem því fylgir að taka setu hvort sem er í sveitarstjórnum eða á Alþingi.

Nú hafa kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn Hafnafjarðar hlaupist undan þeirri ábyrgð að taka ákvörðun í málinu um stækkun álversins í Straumsvík og sent málið í atkvæðagreiðslu hjá íbúum bæjarfélagsins. Þetta mál er í raun þannig að það hefði aldrei átt að vera hægt að senda það í slíka kosningu.

Ekki bara vegna þess að hér er um málefni eins tiltekins fyrirtækis að ræða heldur fyrst og fremst vegna þess að fyrir áratugum tóku forverar hinna kjörnu fulltrúa þá ákvörðun hvar álverið skyldi vera og síðan hefur því verið leyft að vaxa og dafna á þeim stað.

Núverandi kjörnu fulltrúar hafa staðfest þessa staðsetningu með því að selja álverinu lóð undir stækkunina. Því segi ég við hina kjörnu fulltrúa í Hafnarfirði. Axlið ykkar ábyrgð og klárið málið. Ykkur er auðvitað í sjálfsvald sett að segja að álverið verði ekki stækkað en þá hefði átt að taka þá ákvörðun fyrir lifandi löngu.

Nú hefur verið eytt miklum tíma til einskis og að sjálfsögðu ber Hafnafjarðarbær og stjórn hans ábyrgð á því að draga álverið á asnaeyrunum allan þennan tíma.  Hverju skilaði svo þessi endaleysa í Hafnarfirði. Svarið er einfalt: Nákvæmlega engu, öðru en því sem fyrirfram var vitað. Hvorug fylkingin getur lýst yfir sigri og hvorug hefur gert það.Hafnfirðingar sögðu pass: og hinir kjörnu fulltrúar sem töldu sig geta sloppið með að taka ákvörðun sitja enn uppi með króann og vonandi hlúa þeir vel að honum í komandi framtíð.  Það er mín einlæg ósk að menn dragi lærdóm af þessari atkvæðagreiðslu í Hafnarfirði og hugsi sig vel og vandlega um áður en farið er út í slíkt á nýjan leik.

Ef þeir sem kosnir hafa verið til ábyrgðar í þessu þjóðfélagi treysta sér ekki til að taka erfiðar ákvarðanir þá er þeim best að gefa ekki kost á sér til frekari setu og víkja fyrir þeim sem geta það.

Skiptar skoðanir á því hvort við Íslendingar eigum að halda áfram að byggja hér upp orkufrekan iðnað eins og álver. Í mínum huga hlýtur það samt að teljast skynsamlegt að standa við þær ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar á liðnum árum.

Við höfum tekið ákvörðun um að byggja þrjú til fjögur álver hér á landi. Er þá ekki rétt að við leyfum þeim að dafna þannig að þau verði samkeppnishæf og skili sem mestum arði til þjóðarinnar. 

Björn Emil Traustason.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Sammála og ég var ánægð með Jónínu Bjartmarz í fréttunum í kvöld.  Hún sagði það sem segja þarf.

Vilborg Traustadóttir, 7.4.2007 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband