Hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni

Þetta er mjög merkileg frétt við eigum að bera virðingu fyrir þeim hermönnum sem börðust fyrir frelsi okkar.Smile

Fyrri heimsstyrjöldin skall á þann 28. júlí 1914 með stríðsyfirlýsingu austurríska-ungverska ríkisins á hendur Serbíu. Opinbert tilefni stríðsyfirlýsingarinnar var morð bosnísks-serbs þjóðernissinna á austurríska ríkisarfanum Franz Ferdinand og konu hans í Sarajevo mánuði áður sem og höfnun serbneskra yfirvalda á þeim hörðu skilyrðum sem stjórnvöld í Austurríki-Ungverjalandi settu þeim í kjölfar þess. En tilefnið var lítið annað en átylla sem Austurríki-Ungverjaland beitti til að réttlæta stríð gegn Serbum og markar endapunktinn á áralangri þróun og vaxandi spennu milli evrópsku stórveldanna.

Heimsstyrjöldin hafði hræðilegar afleiðingar í för með sér og var lengi vel talað um hana sem „stríðið mikla“ þar til seinni heimsstyrjöldin sýndi og sannaði að styrjaldir geta jafnvel verið enn hroðalegri. Þegar upp var staðið hafði fyrri heimsstyrjöldin kostað heiminn fleiri mannslíf en nokkurt annað stríð hafði áður gert. Talið er að um 10 milljónir hermanna hafi fallið og yfir 20 milljónir særst alvarlega. Tala látinna borgara nam yfir hálfri milljón. Eyðileggingin sem stríðið olli á akuryrkjusvæðum, híbýlum, iðnaðarmannvirkjum og menningarlegum verðmætum var meiri en nokkur hafði getað gert sér í hugarlund. Vesturlandabúum var því fyrri heimsstyrjöldin sannkallað áfall.

Fyrri og seinni heimsstyrjöldin eru langt frá því að vera einangraðir atburðir. Á milli afleiðinga fyrri heimsstyrjaldarinnar og upphaf hinnar seinni eru bein tengsl. Þannig má líta svo á að tíminn frá u.þ.b. 1870 til 1945 spanni eina samhangandi heild. Auk þess eru fjölmörg þeirra vandamála sem við eigum við að etja í nútímanum afleiðingar sem rekja má beinlínis til valdabaráttu, átaka og stjórnarstefnu stórveldanna á 19. öld. Aðstæður nútímans eru óhjákvæmilega afleiðingar liðinna atburða. Til þess að öðlast skilning á nútímanum er því mikilvægt að skoða vandlega hvað það var sem leiddi til þess að öll stærri ríki Evrópu í upphafi 20. aldar leiddust út í stríð og hvaða tímabundnu og langvarandi afleiðingar það hafði fyrir Evrópu og raunar gervalla veröldina.
Ísland og fyrri heimsstyrjöldin

Fyrri heimstyrjöldin markaði ný kaflaskipti í samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir. Dró til mestra tíðinda skiptin við Breta, einkum í fyrstu vegna hernaðargildis Íslands. Stríðið var raunar ekki skollið á þegar Bretar fóru að gera sér áhyggjur af varnarleysi Íslendinga. Beindust þær áhyggjur aðallega að Þjóðverjum og óttuðust bresk stjórnvöld einkum að þýski flotinn kæmi sér hugsanlega upp einhvers konar aðstöðu á Íslandi. Úr því varð þó ekki, en til að tryggja hagsmuni Breta, og hafa næmar gætur á því sem Þjóðverjar aðhefðust hér, var hingað sendur ræðismaður 1914, röskum mánuði eftir að heimstyrjöldin hófst.
Aukið hernaðarlegt vægi Íslands byggðist m.a. á því að breski flotinn var farinn að notast við olíu í auknum mæli í stað kola. Olíuna fluttu Bretar einkum inn frá Persíu og Bandaríkjunum og voru fyrir vikið enn háðari aðdráttum yfir hafið en áður. Siglingaleiðin yfir Atlantshafið var Bretum því mikilvægari en nokkru sinni fyrr og fyrir vikið óx hernaðarlegt mikilvægi Íslands. Því var það sem þeir lögðu svo mikla áherslu á að halda Þjóðverjum frá landinu.

Bretar settu fljótlega hafnbann á þýsk skip með því að staðsetja meginflota sinn norður af Orkneyjum, skammt frá því sem Atlantshafið mætir Norðursjó. Kom þetta bæði í veg fyrir útrás þýska herskipaflotans, lokaði helstu skipaleiðum þýska kaupskipaflotans og varði heimalandið fyrir hugsanlegri innrás.
Þegar líða tók á árið 1915 hófu Bretar bein afskipti af utanríkisverslun Íslendinga. Öll viðskipti við Þjóðverja voru bönnuð og áætlunarskip, sem sigldu milli Íslands og annarra landa urðu að koma við í breskri höfn til skoðunar. Þeir, sem vildu ekki fara að kröfum Breta, voru settir á svartan lista og þar með í vipskiptabann. Öll sendibréf til landsins, sem Bretar náðu til, voru ritskoðuð og sama gilti um símskeyti.

Bretar komu þannig í veg fyrir bein viðskipti Íslendinga við Þjóðverja, en grunaði hins vegar að vörur, sem fluttar voru til hinna Norðurlandanna, enduðu í höndum Þjóðverja. Þeir vissu að Danir seldu Þjóðverjar mikið af landbúnaðarvörum en gátu lítið í því gert. Hins vegar gátu þeir beitt sér gegn vöruflutningum Íslendinga til hinna Norðurlandanna og brugðu á það ráð, án samráðs við Dani, að bjóða Íslendingum að selja sér umræddar vörur. Að öðrum kosti yrði lokað á alla verslun og siglingar Íslendinga austur á bóginn.

Íslendingar komust að þeirri niðurstöðu að mönnum væri nauðugur einn kostur og var Dönum tilkynnt um þá ákvörðun. Í kjölfarið var undirritaður viðskiptasamningar við Breta sem þóttu frekar hagstæðir. Eftir það voru viðskipti við hin Norðurlöndin bundin þröngum skorðum og útflutningur til Danmerkur stöðvaður. Breska stjórnin lofaði á móti að kaupa þær afurðir sem ekki fékkst markaður fyrir og ennfremur að tryggja aðflutning á helstu nauðsynjavörum til Íslands.

Eftir að Bandaríkjamenn drógust síðar inn í styrjöldina urðu þeir óbeinir aðilar að þessum viðskiptasamningum og komu Bretar því þá til leiðar að Bandaríkjamenn tóku að sér að sjá Íslendingum fyrir ýmsum nauðsynjum. Heimsstyrjöldin varð þannif þess valdandi að Bretland og Bandaríkin voru orðin helstu viðskiptalönd Íslendinga. Með viðskiptasamningunum við Breta 1916 gengu Íslendingar opinberlega til samstarfs við eiinn hernaðaraðilann, Breta, gegn öðrum, Þjóðverjum. Þetta töldu íslenskir ráðamenn illa nauðsyn, þrátt fyrir yfirlýst hlutleysi landsins í stríðinu, svo tryggja mætti að atvinnulíf á Íslandi hryndi ekki stöðvuðu Bretar alla verslun og siglingar Íslendinga austur á bóginn. Ber heimildum þó saman um að meirihluti Íslendinga hafi verið hlynntur Bandamönnum og þegar kom fram á árið 1918 áttu Þjóðverjar sér fáa formælendur hér á landi, einkum að talið er vegna ódulbúinnar valdastefnu þýska keisarans, brot Þjóðverja á hlutleysi Belgíu og ótakmarkaður kafbátahernaður.

Þjóðverjar máttu sín lítils á Íslandi á þessum ófriðarárum. Bretar gerðu kjörræðismanni þeirra óvært á Íslandi með því að setja hann á svartan lista og settist hann að í Kaupmannahöfn. Fengu Þjóðverjar ýmsa Íslendinga til að tala máli sínu hér á landi, dreifa áróðri, semja skýrslur fyrir þýska sendiráðið í Kaupmannahöfn og senda þýska flotanum veðurskeyti á dulmáli. Starf þeirra skilaði þó litlu.

Í blaðaskrifum klifuðu Þjóðverjar á því að Bretar hefðu gert Ísland að nýlendu sinni og arðrændu þjóðina í verslun. Væri það stefna þeirra að slíta landið úr tengslum við Dani og innlima það síðan. Allt bendir þó til þess að þessi tortryggni hafi verið byggð á sandi og að breska stjórnin hafi aldrei haft uppi hugmyndir um að leggja Ísland undir sig og reynt að skipta sér sem allra minnst af sambandi Íslendinga og Dana.

Heimsstyrjöldin leiddi þannig til þess að leiðir skildu með Íslendingum og Dönum í utanríkismálum og viðskiptum. Þýddi það aukið sjálfræði fyrir landsmenn og voru þeir staðráðnir í að hverfa ekki til fyrra horfs þegar stríðinu lyki. Andstaða Breta við verslun Dana við Þjóðverja ýtti undir kröfur Íslendinga um sérstakan farfána fyrir íslensk skip, enda óttuðust Íslendingar að Bretar kynnu að ganga svo langt að banna siglingar allra skipa undir dönskum fána. Danska stjórnin var þó ekki tilbúin að ræða það mál á meðan að á styrjöldinni stóð.

Hugmyndir Woodrews Wilsonar, um sjáfsákvörðunarrétt smáþjóða, urðu svo til þess að Danir óttuðust að Íslendingar myndu nýta sér tækifærið og krefjast fulls sjálfstæðis. Sáu þeir því þann kost vænstan að bjóða Íslendingum að semja um sambandsmálið í heild sinni. Með sambandslagasamningnum 1918 var girt fyrir, eins og kostur var, að landið drægist sjálfkrafa með Dönum inn í ófrið.

mbl.is Enn eru 36 á lífi sem tóku þátt í fyrri heimsstyrjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristófer Sigurðsson

Fín grein - en ég vona að þú hafir verið að grínast með "...hermönnum sem börðust fyrir frelsi okkar".  Þar sem þú settir broskarl þar á eftir geri ég ráð fyrir að svo sé.

Greinin er samt dálítið yfirborðskennd að ýmsu leyti og ber ákveðin merki hlutdrægni, sem er eitt það versta sem sagnfræðilegur texti getur dottið ofan í - t.d. tiltekur þú árás Austurísk-Ungverska keisaradæmisins inn í Serbíu sem ástæðu styrjaldarinnar, en eins og þú reyndar ýjar óljóst að síðar í greininni var búið að vera kalt stríð milli stórveldanna í áratugi fram að því.  Ástandið var mjög eldfimt og það þurfti hreinlega ekki mikið til að kveikja í því.  Það sem var að gerast á Balkanskaga ógnaði auk þess stöðugleika svæðisins og sérstaklega stöðugleika Austurríkis-Ungverjalands, enda var það samansett úr mörgum þjóðarbrotum - suðupottur.

Án þess að vilja afsaka nokkurn aðila styrjaldarinnar, þá finnst mér þú halla of mikið á Þjóðverja og bandamenn þeirra í þessu yfirliti.

Kristófer Sigurðsson, 6.3.2007 kl. 07:18

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Takk fyrir mjög skemmtilega færslu.

Villi Asgeirsson, 6.3.2007 kl. 10:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband